Markþjálfun á heima í grunnskólum

Markþjálfun er gagnreynd samtalsaðferð sem miðar að því að stækka hugmyndir marksækjenda um sig sjálfa á þeirra eigin forsendum. Ég var í nokkur ár búin að kynna mér áherslur í grunnnámi í markþjálfun áður en ég fór að læra hana, og taldi ég að aðferðin myndi nýtast vel í starfi mínu sem kennari í námsveri á unglingastigi, hvar ég vinn að því að hvetja unga námsmenn til dáða á eigin forsendum.

Ég tók ákvörðun um að læra aðferðina haustið 2018 og ég hlakkaði mikið til námsins. Mig óraði þá ekki fyrir hvers konar starfstengd og persónuleg umbreyting átti eftir að eiga sér stað hjá mér á þessu tveggja ára námstímabili sem svo varð raunin, langt umfram það sem ég hafði gert mér í hugarlund í upphafi. Segja má að ég hafi kolfallið fyrir aðferðinni, sérstaklega í tengslum við starf mitt með nemendum, en ég lauk ekki bara grunnnáminu heldur stóðst einnig alþjóðlegt vottunarpóf og lauk framhaldsnámi í markþjálfun vorið 2020.

Aðferðir markþjálfunar falla vel að hugmyndum um einstaklingsmiðið nám, aðferðum leiðsagnarnáms, áherslum aðalnámskrár grunnskóla og menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030, svo eitthvað sé nefnt, og á markþjálfun því fyllilega heima í grunnskólastarfi að mínu mati. Það er samhljómur í reglum kennara um trúnað, ábyrgð og samskipti kennara við nemendur, í siðareglum sem gilda í samskiptum markþjálfa og marksækjenda. Í menntastefnu Reykjavíkurborgar er eitt af meginmarkmiðið sjálfsefling nemandans. Þar segir:„Sjálfsefling felur í sér að barnið öðlist trú á eigin getu, læri að þekkja styrkleika sína og veikleika ásamt því að setja sér markmið og fylgja þeim eftir. Sjálfsefling byggir á sjálfsaga og þrautseigju. Skýr og sterk sjálfsmynd hjálpar barninu að taka sjálfstæðar, ábyrgar ákvarðanir, takast á við mótlæti og lifa í sátt við aðra. Sjálfsstjórn og samskiptahæfni eru nátengd og hafa áhrif á sjálfstraust barna, líðan, námsárangur og árangur í lífinu.” Að nemandinn öðlist innsýn í styrkleika sína, valdeflist við að kunna að nýta sér þá og vinni markvisst að persónulegum markmiðum sínum rímar mjög vel við áherslur í markþjálfasamtali. Það er mín skoðun að í hverjum grunnskóla eigi að vera starfandi uppeldis- eða kennaramenntaður markþjálfi með reynslu af skólastarfi þar sem marksækjendur eru ungir að árum. Markþjálfinn vinnur líka náið með kennurum, námsráðgjöfum, stjórnemndum og foreldrum, hverjum nemanda til handa, og mikilvægt að viðkomandi markþjálfi þekki vel til skólastarfs almennt.

Ávinningur af markþjálfanáminu í starfi mínu sem kennari hverfist helst um tvo þætti; annars vegar um nám nemenda og hins vegar hvernig ég ígrunda kennsluhætti mína. Með aðferðum markþjálfunar, þá helst virkri hlustun, kraftmiklum spurningum og fjölsæi, heyri ég betur hvað skiptir máli í því hvernig nemendur læra, sem speglast svo í kennslu minni. Af því leiðir að nemendur upplifa árangur í námi fyrr en áður. Nemendur eflast í námi, en um leið á fleiri sviðum, því sjálfstraust þeirra eykst ásamt trú á eigin getu við bætt vinnubrögð og meiri námsárangur. Þessi gáruáhrif berast svo til fleiri þátta í lífi nemandans, inn í samskipti við foreldra og við fjölskyldu, í frístundastarfið og svo mætti lengi telja. Allt þetta eflir aftur sjálfstraust mitt sem kennari og markþjálfi. Mér finnst ég stundum hafa öðlast 4. persónu sjónarhorn á upplifun mína af kennarastarfinu með tilkomu markþjálfunar, það er mér mjög dýrmæt upplifun og verðlaunandi, sem ég er þakklát fyrir á hverjum degi.

Ég fékk í kjölfar námsins tækifæri til starfsþróunar og er markþjálfun nú daglegur hluti af starfi mínu í námsverinu. Árið 2019 útfærði ég þróunarverkefni sem felst í því að allir nemendur í 10. bekk fá fjögur námstengd markþjálfasamtöl á lokanámsári sínu í grunnskóla. Þar setja nemendur sér persónuleg, raunhæf og mælanleg námsmarkmið og njóta svo eftirfylgnisamtals þar sem fjallað er um hvað gekk vel og hvað hefði betur mátt fara. Nemendur geta einnig pantað sér fleiri samtöl ef þeir vilja. Reynslan sýnir að nemendur telja viðtölin mjög gagnleg til eflingar í námi og til stendur að víkka verkefnið með 10. bekk út til yngri nemenda ásamt fleiru sem tíminn leiðir í ljós.

Persónulegur ávinningur minn af markþjálfanáminu er svo víðtækur að hann er efni í aðra grein, en stutta útgáfan er sú að ég sit betur í sjálfri mér og er óhrædd við að uppfæra mig reglulega. Ég er glaðari, rólegri, treysti innsæi mínu og tilfinningum mínum betur en áður, stend betur með mér og tek ábyrgð á eigin líðan. Þannig verð ég meira ég og get gefið meira af mér til mín og minna, í leik og starfi. Ég hlakka til alls þess sem til mín kemur og lít björtum augum til framtíðar.

Ingunn Ásta Sigmundsdóttir, ACC vottaður markþjálfi.

Hverju getur markþjálfun í skólum komið til leiðar?

 

Viljum við bæta samskipti í skólum með aðferðum markþjálfunar?

Á dögunum rak á fjörur okkar bók sem fjallar um hvernig mögulegt er að bæta samskipti í skólum. Höfundar höfða til skólastjórnenda og lýsa aðferðum sem notaðar eru í markþjálfun og geta bætt samskipti, aukið traust og sjálfsmynd, kennara og starfsfólks, hjálpað þeim að taka sjálfstæðar ákvarðanir og hugsa út fyrir rammann. Í þessu skyni taka höfundar raunveruleg dæmi úr skólastarfi.

Linda M. Gross Cheliotes, Marceta A. Reilly Höfundar bókarinnar Coaching Conversation: Transforming your school, One conversation at a time, ganga út frá að viðtöl sem eru í anda markþjálfunar ”coach-like”, þar sem aðferðum markþjálfunar er beitt á réttan hátt, geti leitt til umbreytingar á stofnunum.

Markþjálfasamtal er ómissandi verkfæri fyrir leiðtoga 21. aldarinnar. Í markþjálfun er hlustun og tal notað milli samastarfsaðila á jafningjagrunni. Það er ekki gert ráð fyrir að það þurfi að ”gera við/ laga” aðra. Markþjálfun byggir á þeim forsendum að þörfin fyrir að gefa öðrum ráð  grafi undan trausti og sjálfsmynd viðmælanda. (höfundar)

Miklar kröfur eru gerðar til skólastjórnenda í dag, skólasamfélagið ætlast til að stjórnendur hafi skýra sýn, víða þekkingu á kennslu og námskrá, geti skapað ákjósanlegt og uppbyggilegt námsumhverfi, átt góð samskipti við samfélag fyrirtæki og stofnanir, haft stjórn á takmörkuðu fjármagni, vera reiðubúnir til að takast á við neyðartilvik ýmis konar, bregðast við spurningum, mæta á fundi og undirbúa og þróa áætlanir. Ofangreint telst til starfa skólastjórnenda en auk alls þessa þarf góður leiðtogi að vera hæfur í mannlegum samskiptum og geta komið skoðunum sínum, viðhorfum/sýn og stefnu til skila til starfsmanna, nemenda og foreldra. Skólastjóri getur sett fram ýmis konar aðgerðaráætlanir til skólaþóunar, en viðvarandi vöxtur og breytingar eru ekki líkleg til að eiga sér stað nema allir hlutaðeigandi í skólanum samþykki breytingarnar og eigi hlutdeild í þeim, og finni fyrir stuðningi um leið og þær eru framkvæmdar.

Höfundar bókarinnar gera ekki lítið úr þeim verkefnum sem skólastjóri þarf að sinna varðandi þróun og breytingar innan skólans og skólakerfisins og þær skyldur sem hann hefur gagnvart ýmsum fundum og ráðum þar að lútandi. En þeir leggja áherslu á að í önn dagsins hafi skólastjórar mörg tækifæri til að hafa áhrif á breytingar með stuttum samtölum við starfsfólk, nemendur, foreldra, aðra stjórnendur, leiðbeinendur og skólaliða.

Gamall hugsunarháttur / ný hugsun:
Nýlegar rannsóknir ( David Rock, 2006) sýna, að til þess að hvetja til breytinga hjá okkur sjálfum eða öðrum þarf að verða breyting á gömlu munstri sem heilinn hefur skapað gegnum tíðina. Jafnvel þó við viðurkennum að ákveðnar breytingar séu nauðsynlegar hverfum við aftur til gamla hugsanamynstursins einfaldlega vegna þess að gamla hugsanamynstrið hefur fest sig svo vel í sessi í heila okkar. Við streitumst á móti taugafræðilegum breytingum.
Ef við ætlum að breyta hugsanamynstri okkar sem leiðir til breyttrar hegðunar þá þarf að skapa nýjar taugabrautir í heilanum, en það gerist með djúpri umhugsun/íhugun og meðvituðum endurteknum æfingum.
Markþjálfunarsamtal hvetur til djúprar umhugsunar sem er nauðsynleg til þess að mynda ný hugsanamynstur í heilanum.
Það sem meira er, ef skólastjórnandi býður samstarfsfólki sínu upp á markþjálfunarviðtöl, veitir hann starfsfólkinu áframhaldandi stuðning til að þjálfa upp nýja hugsun og hegðun. Þetta leiðir til raunverulegra breytinga, ekki aðeins á yfirborðinu heldur einnig taugafræðilegu tilliti.

Með öðrum orðum: Markþjálfunarsamtal hvetur til þróunar nýrra taugabrauta í heilanum, sem getur leitt til breyttrar hegðunar til langframa.

Þetta er aðeins lítið brot úr þessari áhugaverðu bók, sem vekur til umhugsunar um hvernig jákvæð uppbyggileg samtöl sem byggð eru á virkri hlustun og áhuga fyrir því sem viðmælandi hefur að segja án þess að gefa ráð og hafa lausnirnar á hreinu getur valdið straumhvörfum í skólastarfi.