Fréttir

Maí 2021

Áfram heldur starfið í FB og markþjálfi hluti af þjónustuteymi skólans.

Í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti er skólamarkþjálfi hluti af nemendaþjónustu skólans. Aðrir sem tilheyra nemendaþjónustunni eru þrír náms- og starfsráðgjafar, einn sérkennari og sálfræðingur.  Nemendum skólans stendur því til boða mikil og fjölbreytileg þjónusta og er það vel. Það eru sannkölluð forréttindi að starfa sem markþjálfi með nemendaþjónustu, og ekki síður, nemendum FB.

þriðjudagur, 11. maí 2021Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs voru veitt við hátíðlega athöfn á MenntaStefnumóti í Hörpu í gær. Þau koma í hlut átta nýbreytni- og þróunarverkefna í borginni. Fjögur samstarfsverkefni fengu einnig sérstaka viðurkenningu. Til hamingju Ingunn Ásta og Háteigsskóli

Háteigsskóli fær hvatningarverðlaun fyrir verkefnið Sjálfsekking í þágu náms þar sem unnið er með markþjálfun á unglingastigi. Markmiðið er að styðja við nemandann svo að hann læri að taka ábyrgar og upplýstar ákvarðanir í eigin lífi.

Fróðleiksmolar frá Fagskrifstofu grunnskóla – febrúar 2021

Hrósið fær ...
(Á myndinni má sjá Arndísi Steinþórsdóttur, skólastjóra (t.v.), og Ingunni Ástu Sigmundsdóttur, kennara og markþjálfa (t.h.)).

Hrósið fær …

….. Háteigsskóli fyrir að vinna markvisst með markþjálfun nemenda á unglingastigi skólans. „Í nútímasamfélagi er sjálfsþekking mikilvæg. Skapa þarf aðstæður til að efla færni í hvetjandi námsumhverfi þar sem leitast er við að efla nemandann sem virkan þátttakanda. Með því að gefa nemendum tækifæri til að njóta styrkleika sinna er stutt við uppbyggingu jákvæðrar sjálfsmyndar. Markmiðið er alltaf að styðja við nemandann svo hann læri að taka ábyrgar og upplýstar ákvarðanir í tengslum við eigið líf. Verkefnið kallast á við Menntastefnu Reykjavíkurborgar þar sem barnið er öndvegi. Fagmennska og samstarf snýst um velferð nemenda og að örva starfsgleði þeirra og frjóa hugsun.

Markþjálfun mælist vel fyrir meðal nemenda skólans. Þrautseigjuvöðvinn styrkist, vellíðan eykst og með bættri yfirsýn og auknum námsárangri styrkist sjálfsmyndin.“ Virkilega spennandi verkefni sem hefur nú þegar sýnt fram á mikilvægi sitt varðandi námsframvindu og vellíðan nemenda – VEL GERT!!

Febrúar-2021 Á haustdögum bættist í hóp Skólamarkþjálfunar, Ingunn Ásta Sigmundsdóttir, kennari og markþjálfi. En markmið okkar sem standa að Skólamarkþjálfun er að starfsmenn séu með kennarmenntun og hafi reynslu af starfi innan skóla. Fyrirmyndina höfum við frá Svíþjóð, Skolcaocherna. Tvær okkar eru í föstu starfi í skólum borgarinnar.

Fréttir úr FB – María Solveig Héðinsdóttir Yfirstandandi skólavetur og það að vera nemandi þegar heimsfaraldur geisar er mikil áskorun. Hindranirnar eru margar en jafnframt tækifærin. Sérhvert einfalt viðfangsefni hefur á sér nokkrar hliðar þannig að viðfangsefnið að vera nemandi í heimsfaraldri hefur á sér fjölmargar og mis heillandi hliðar. Í Fjölbrautskólanum í Breiðholti hefur nemendum og starfsfólki staðið til boða að koma til markþjálfa skólans. Eins og gefur að skilja var langur tími þar sem ekki var í boði að hittast nema með aðstoð tækninnar. Sú leið gafst ágætlega hjá þeim sem á annað borð voru tilbúnir að fara þá leið. Eftir að nemendum var heimilt að koma aftur í skólann hófust hefðbundin viðtöl  en þó voru nokkrir sem vildu halda áfram að hafa viðtöl á teams, face time eða zoom. Eins og áður hefur komið fram starfar markþjálfi innan nemendasviðs FB  en þar starfar jafnframt sálfræðingur, sérkennari og þrír námsráðgjafar.  Óhætt er að segja að ákveðinn doði hafi einkennt samfélagið á þessum skrýtnu tímum og ein birtingarmynd doðans er að eintaklingar eru kannski ekki nægilega duglegir að bera sig eftir björginni. Þannig hefur verið frekar rólegt í markþjálfuninni enn sem komið er en nú þegar skólahúsnæðið iðar af lífi  á nýjan leik  hefur beiðnum um viðtöl fjölgað. Það er ótrúlega dýrmætt að vera til staðar sem markþjálfi fyrir skólasamfélagið í FB.

Fréttir úr Háteigsskóla má lesa á síðunni: Hvernig nýtist markþjálfun í skólum? Hugleiðingar Ingunnar Ástu kennara og markþjálfa.

22.september 2020Starfið í FBáhersla á líðan nemenda og samskipti við þá.

Nemendaþjónunsta Fjölbrautaskólans í Breiðholti er í sífelldri mótun. Mikill metnaður og umhyggja í garð nemenda einkennir þessa þjónustu. María, skólamarkþjálfi, heldur áfram starfi sínu í FB. Nemendum og starfsfólki stendur til boða að koma í markþjálfun og nemendur geta pantað viðtal með því einfaldlega að senda tölvupóst eða hringja.  Fjölmörg markþjálfasamtöl áttu sér stað síðasliðinn vetur og gaman er að segja frá því að í fyrra var einn hópur nemenda sem nýtti sér að koma í hópmarkþjálfun. Starf yfirstandandi skólaárs er hafið og ljóst það mun reyna á starfsfólk og nemendur skólanna. Gott er til þess að vita að nemendaþjónusta FB hefur innan sinna vébanda þrjá námsráðgjafa, sérkennara, bókasafnsfræðing, sálfræðing og markþjálfa. Við upphaf skólastarfs hvatti skólameistrari; Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, til þess að mildi í samskiptum yrði leiðarljós vetrarins og það þykir okkur skólamarkþjálfunum gott leiðarljós. 

20.sept. 2020 – nemendaviðtöl í Austurbæjarskóla til að bæta samskipti kennara og nemenda.

Starfsfólk í skólum landsins hefur heldur betur sýnt fagmennsku, sveigjanleika, víðsýni, skapandi  lausnamiðaða hugsun og svo margt fleira til að  gera skólahald mögulegt þessi misserin. Líðan nemenda skiptir miklu máli ef ekki öllu. Skólamarkþjálfarnir tóku upp þráðinn, frá síðastliðnum vetri, með umsjónarkennurum Austurbæjarskóla. Viðfangsefnið var bætt samskipti nemenda og kennara og ákveðið að nýta aðferðarfræði markþjálfunar í nemendasamtölum. Sérhver nemandi fær tvö auka samtöl á vetri og umsjónarkennari leggur við hlustir. Einbeittur vilji til að gera góð samskipti enn betri er augljós í Austurbæjarskóla og við óskum kennurum og nemendum alls góðs á þessum sérstaka vetri.

13. ágúst 2019- Nýtt skólaár framundan

Haustið er handan við hornið. Við skólamarkþjálfarnir erum með uppbrettar ermar og hlökkum til vetrarins. Starfið í FB heldur áfram og svo verðum við einnig að vinna með kennurum Austurbæjarskóla. Aðferðarfræði markþjálfunar passar einstaklega vel í skólaumhverfinu.

13.maí 2019 – Blað brotið í sögu framhaldsskóla

Nú þegar styttist í lok skólaársins 2018-2019 er gaman að segja frá því að nemendum Fjölbrautaskólans í Breiðholti hefur; í allan vetur, staðið til boða að fara til markþjálfa. Er þessi þjónusta ný og hugsuð sem viðbót við þá nemendaþjónustu sem fyrir er í skólanum. Fjölmargir nemendur hafa nýtt sér þessa þjónustu. Það hefur verið einstakt að vinna með nemendum og starfsfólki FB.  Við hjá Skólamarkþjálfun teljum að FB hafi með þessu brotið blað skólasögunni og stuðlað að enn betri árangri og betri líðan nemenda.

28. mars 2019

Við höfum verið óduglegar að setja inn fréttir af Skólamarkþjálfun. En starfið í FB heldur áfram með sama sniði og hefur nemendum sem nýta sér markþjálfun fjölgað. Það er ekki ofsögum sagt að þetta starf meðal nemenda er mjög gefandi og gaman að upplifa þegar nemendur eru tilbúnir að setja sér markmið og finna jafnframt að sjálfstraustið eykst.

 

18. september 2017 – Áframhaldandi starf í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti

Markþjálfun og skólastarf er okkur svo hugleikið. Starfið í Fjölbraut í Breiðholti heldur áfram og við erum þátttakendur í því. Við erum hluti af teymi umsjónarkennara, erum með okkar eigin umsjónarnemendur og… svo erum við líka með nemendur í einstaklingsmarkþjálfun. FB er okkar heimavöllur!

13. desember
Fréttir úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.

Nú höfum við hjá Skólamarkþjálfun.is lokið þessari önn.
Það eru forréttindi að fá að vinna með ungu fólki sem tekur sér tíma til að horfa inn á við og sjá hverju það getur breytt í eigin lífi með því að setja sér markmið og leitast við að ná þeim. Eftir ánægjulegan fund með námsráðgjöfum og skólastjórnendum var ákveðið að verkefnið skyldi halda áfram, þar sem nemendur sem notið hafa markþjálfunar hafa eindregið óskað eftir áframhaldandi markþjálfun. Mikil gleði ríkir   hjá okkur markþjálfum.
Gleðilega hátíð og gæfuríkt komandi ár.

13. ágúst 2016

Námskeið/Kynning í FB

16. ágúst var Skólamarkþjálfun með stutt námskeið/ kynningu á markþjálfun og hvernig hún getur nýst í skólastarfi í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.  Í  meginmarkmiðum skólans er lögð áhersla á  að nemendur þekki skyldur sínar og beri ábyrgð á eigin námi og  að lögð sé rækt við félagsþroska þeirra og ábyrgð á eigin velferð. Markþjálfun nemenda og kennara styður vel við þessi markmið. Þess vegna hefur skólinn ákveðið að gefa nemendum og kennurum kost á markþjálfun.  Við markþjálfarnir þökkum fyrir ánægjulega samveru með kennurum skólans og hlökkum til áframhaldandi samstarfs í vetur.

IMG_6655IMG_6656IMG_6654

 

28.apríl 2016

Markþjálfun nemenda í FB (Fjölbrautaskólanum í Breiðholti)

Gaman er að segja frá því að Skólamarkþjálfun hefur síðustu vikurnar unnið með nokkrum nemendum í FB. Okkur var falið þetta verkefni af skólameistara í nánu samastarfi við námsráðgjafa skólans. Þetta verkefni hefur verið einstaklega gefandi fyrir okkur markþjálfana og hafa nemendur sem þátt hafa tekið verið áhugasamir og duglegir að setja sér markmið. – Það er einnig skemmtilegt að geta sagt frá því að verkefnið mun halda áfram næsta vetur og þá fá fleiri nemendur tækifæri til að nýta sér þetta verkfæri. 

Vitnisburður nemenda:
„gott að fá hvatningu“
„hjálpar mér við að skipuleggja nám mitt“
„gott að láta hlusta á sig“
„hef meiri trú á sjálfum mér“
„gott væri að hafa svona allan veturinn“
“ reyni að hugsa meira jákvætt“

—————————–

 

Niðurstöðum  í verkefninu „farsæl nemendaviðtöl“  skilað í Fellaskóla 12. maí.

Markþjálfar buðu til lokahófs 

Ánægjulegum vetri með metnaðarfullum kennurum í Fellaskóla lokið.  Í Niðurstöðum könnunar meðal umsjónarkennara sem tóku viðtöl við nemendur kemur ma. fram  að öllum finnst að aðferðafræði markþjálfunar  geti ótvírætt nýst kennurum.  Best nýtast fræðin í „sjáðu mig viðtölunum“  em einnig í almennum samskiptum við nemendur og í kennslunni sjálfri og þá sérstaklega  hvernig hægt er að nýta opnar spurningar sem hvetja til sjálfstæðrar hugsunar.  Fram kemur einnig að:

  • viðtölin stuðli að  betri kynnum milli kennara og nemanda
  • viðtölin stuðli að trausti
  • þau auki  jafnræði  milli nemenda
  • þau  stuðli að meiri velllíðan nemenda og nemendum finnst spennandi að vera í einlægu viðtali við kennara.

IMG_4809IMG_4807

IMG_4792IMG_4801

IMG_4797

IMG_4796

IMG_4794

 

Styrkur veittur til verkefnisins „Farsæl nemendaviðtöl“ í Fellaskóla

Fimmtudaginn 16. apríl var móttaka í Hannesarholti fyrir þá sem fengu styrki Skóla- og frístundaráðs til ýmissa verkefna í skóla- og frístundastarfi.

Við sem stöndum að Skólamarkþjálfun.is sóttum um styrk til verkefnisins „Farsæl nemendaviðtöl“ ásamt Fellaskóla. Okkur til mikillar ánægju hlaut verkefnið styrk. Verkefninu er ekki lokið, en því mun ljúka í lok skólaárs. Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að vinna að þessu verkefni ásamt starfsfólki Fellaskóla og hlökkum við til að kynna niðurstöður verkefnisins síðar.

Þakklæti er okkur efst í huga og er styrkurinn mikil hvatning til að halda áfram að starfa í anda markþjálfunar. Það er sannfæring okkar að hugmyndafræði markþjálfunar eigi fullt erindi inn í skóla eins og aðrar stofnanir.  

IMG_9189

Frá vinstri: Skúli Helgason formaður fræðsluráðs Reykjavíkur, María Solveig Héðinsdóttir, Kristín Jóhannesdóttir skólastjóri Fellaskóla og Inga Þóra Geirlaugsdóttir.

 

Verkefnið „Farsæl nemendaviðtöl“

Við sem stöndum að Skólamarkþjálfun höfum tekið að okkur verkefni í Fellaskóla sem nefnast farsæl nemendaviðtöl“ –  sjá heimasíðu Fellaskóla 

 
 
 

Eldri fréttir:

3. október verðum við með kynningu á „markþjálfun í skólastarfi“  á Breiðholtsbylgjunni.
Breiðholtsbylgjan  er sameiginlegur vettvangur starfsmanna sem vinna hjá ríki og borg í Breiðholti. Tilgangurinn er  að kynna  ýmis efni svo sem ýmsar nýjungar, verkefni sem eru í þróun, og verkefni sem  hafa reynst vel.  Í boði eru 40 mismunandi vinnustofur (kynningar).

Á vorönn 2014 tókum við þátt í  tilraunaverkefni sem fól í sér markþjálfun 10. bekkinga í skóla í Reykjavík. 

Markþjálfun og sáttamiðlun kennarahóps í Reykjavík fór einnig fram á vorönn 2014.