Hverju getur markþjálfun í skólum komið til leiðar?
Viljum við bæta samskipti í skólum með aðferðum markþjálfunar?
Á dögunum rak á fjörur okkar bók sem fjallar um hvernig mögulegt er að bæta samskipti í skólum. Höfundar höfða til skólastjórnenda og lýsa aðferðum sem notaðar eru í markþjálfun og geta bætt samskipti, aukið traust og sjálfsmynd, kennara og starfsfólks, hjálpað þeim að taka sjálfstæðar ákvarðanir og hugsa út fyrir rammann. Í þessu skyni taka höfundar raunveruleg dæmi úr skólastarfi.
Linda M. Gross Cheliotes, Marceta A. Reilly Höfundar bókarinnar Coaching Conversation: Transforming your school, One conversation at a time, ganga út frá að viðtöl sem eru í anda markþjálfunar ”coach-like”, þar sem aðferðum markþjálfunar er beitt á réttan hátt, geti leitt til umbreytingar á stofnunum.
Markþjálfasamtal er ómissandi verkfæri fyrir leiðtoga 21. aldarinnar. Í markþjálfun er hlustun og tal notað milli samastarfsaðila á jafningjagrunni. Það er ekki gert ráð fyrir að það þurfi að ”gera við/ laga” aðra. Markþjálfun byggir á þeim forsendum að þörfin fyrir að gefa öðrum ráð grafi undan trausti og sjálfsmynd viðmælanda. (höfundar)
Miklar kröfur eru gerðar til skólastjórnenda í dag, skólasamfélagið ætlast til að stjórnendur hafi skýra sýn, víða þekkingu á kennslu og námskrá, geti skapað ákjósanlegt og uppbyggilegt námsumhverfi, átt góð samskipti við samfélag fyrirtæki og stofnanir, haft stjórn á takmörkuðu fjármagni, vera reiðubúnir til að takast á við neyðartilvik ýmis konar, bregðast við spurningum, mæta á fundi og undirbúa og þróa áætlanir. Ofangreint telst til starfa skólastjórnenda en auk alls þessa þarf góður leiðtogi að vera hæfur í mannlegum samskiptum og geta komið skoðunum sínum, viðhorfum/sýn og stefnu til skila til starfsmanna, nemenda og foreldra. Skólastjóri getur sett fram ýmis konar aðgerðaráætlanir til skólaþóunar, en viðvarandi vöxtur og breytingar eru ekki líkleg til að eiga sér stað nema allir hlutaðeigandi í skólanum samþykki breytingarnar og eigi hlutdeild í þeim, og finni fyrir stuðningi um leið og þær eru framkvæmdar.
Höfundar bókarinnar gera ekki lítið úr þeim verkefnum sem skólastjóri þarf að sinna varðandi þróun og breytingar innan skólans og skólakerfisins og þær skyldur sem hann hefur gagnvart ýmsum fundum og ráðum þar að lútandi. En þeir leggja áherslu á að í önn dagsins hafi skólastjórar mörg tækifæri til að hafa áhrif á breytingar með stuttum samtölum við starfsfólk, nemendur, foreldra, aðra stjórnendur, leiðbeinendur og skólaliða.
Gamall hugsunarháttur / ný hugsun:
Nýlegar rannsóknir ( David Rock, 2006) sýna, að til þess að hvetja til breytinga hjá okkur sjálfum eða öðrum þarf að verða breyting á gömlu munstri sem heilinn hefur skapað gegnum tíðina. Jafnvel þó við viðurkennum að ákveðnar breytingar séu nauðsynlegar hverfum við aftur til gamla hugsanamynstursins einfaldlega vegna þess að gamla hugsanamynstrið hefur fest sig svo vel í sessi í heila okkar. Við streitumst á móti taugafræðilegum breytingum.
Ef við ætlum að breyta hugsanamynstri okkar sem leiðir til breyttrar hegðunar þá þarf að skapa nýjar taugabrautir í heilanum, en það gerist með djúpri umhugsun/íhugun og meðvituðum endurteknum æfingum.
Markþjálfunarsamtal hvetur til djúprar umhugsunar sem er nauðsynleg til þess að mynda ný hugsanamynstur í heilanum.
Það sem meira er, ef skólastjórnandi býður samstarfsfólki sínu upp á markþjálfunarviðtöl, veitir hann starfsfólkinu áframhaldandi stuðning til að þjálfa upp nýja hugsun og hegðun. Þetta leiðir til raunverulegra breytinga, ekki aðeins á yfirborðinu heldur einnig taugafræðilegu tilliti.
Með öðrum orðum: Markþjálfunarsamtal hvetur til þróunar nýrra taugabrauta í heilanum, sem getur leitt til breyttrar hegðunar til langframa.
Þetta er aðeins lítið brot úr þessari áhugaverðu bók, sem vekur til umhugsunar um hvernig jákvæð uppbyggileg samtöl sem byggð eru á virkri hlustun og áhuga fyrir því sem viðmælandi hefur að segja án þess að gefa ráð og hafa lausnirnar á hreinu getur valdið straumhvörfum í skólastarfi.