blog

Hvaða erindi á markþjálfun í skóla?  Getur markþjálfun eflt skôlastarf?

Margt hefur verið ritað og rætt um skólastarf í gegnum tíðina og margar stefnur og kenningar litið dagsins ljôs. Menntakerfið og skólastarf er í sífelldri endurskoðun í þeim tilgangi að koma öllum nemendum til  aukins þroska.

Í Aðalnámskrá grunnskóla almennum hluta bls. 25 segir: “ Almenn menntun miðar að því að efla sjálfsskilning einstaklingsins og hæfni hans til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi. Nemendur þurfa að vita hvað þeir vita og hvað þeir geta og vita hvernig best er að beita þekkingu sinni og leikni til að hafa áhrif á umhverfi sitt og bæta það. Hæfni er þannig meira en þekking og leikni, hún felur einnig í sér viðhorf og siðferðisstyrk, tilfinningar og sköpunarmátt, félagsfærni og frumkvæði.“

Þarna er sleginn tónn um sjálfsþekkingu/ sjálfsskilning, sem er hverjum manni nauðsynlegur til þess að kynnast sínum sterku hliðum og nýta þær til hámarka eigin frammistöðu. Eitt af verkfærunum til þess að bæta sjálfsþekkingu og sjálfsvitund er MARKÞJÁLFUN.

Hvaðan kemur markþjálfun?

Orðið markþjálfun er íslenska orðið yfir coaching sem er dregið af orðinu coach sem upphaflega þýddi kerra eða hestvagn. Smám saman breyttist merking orðsins í þann eða það sem flytur fólk á áfangastað.

Sumir vilja halda því fram að Sókrates hafi verið fyrsti markþjálfinn. Hann notaði samtalið til að mennta fólk. Heimspeki hans gekk út á að maður þvingar ekki þekkingu upp á fólk. Þekkingarleitin og áhuginn til að læra þarf að eiga upphaf sitt innra með hverjum manni. Sjálfsþekkingin er samkvæmt Sókratesi ein af grunnstoðum náms.

Orðið coach eins og það er notað í dag á rætur að rekja til íþróttaheimsins, þar sem þjálfarar voru gjarnan kallaðir þessu nafni. En þeirra hlutverk var og er að hjálpa íþróttafólki til að ná hámarksárangri. Á áttunda áratug síðustu aldar tóku menn að átta sig á að hægt væri að nota þessa þjálfun á öðrum vetvangi og þá með jákvæðum formerkjum, ekki bara að horfa á það sem miður fer heldur  eins og Timothy Galwey  orðar það: „forritaðu höfuðið með hugrænum myndum þar sem þér tekst ætlunarverk þitt og þá gerist þetta af sjálfu sér“.

Á svipuðum tíma var farið að nota markþjálfun í atvinnulífinu, þar sem atvinnurekendur fóru að átta sig á að líðan starfsmanna  og starfsánægja skiptir miklu máli í rekstri fyrirtækja. Viðhorfin  um hinn valdamikla fyrirskipandi einræðisstjórnanda sem voru ríkjandi á fyrri hluta 20. aldar  tóku smám saman að víkja fyrir hugmyndum um stjórnanda sem hlustar, spyr, treystir og deilir ábyrgð.

Nú hefur markþjálfun hafið innreið sína í skólana  víðs vegar um heiminn og er komin góð reynsla á þetta verkfæri í Bretlandi, USA og á Norðurlöndunum.

Hvað er markþjálfun?

Markþjálfun er lykillinn að möguleikum fólks til að hámarka eigin frammistöðu. (Gallwey)

Markþjálfun er samtalsaðferð sem miðar að því að leysa úr læðingi  þá hæfileika/ eiginleika sem einstaklingurinn býr yfir og hefur  fimm stoðum markþjálfunar verið lýst á eftirfarandi hátt:

  • opna fyrir möguleika,
  • stuðla að aukinni ábyrgð,
  • auka áhugahvöt (motivation) og skuldbindingar,
  • vera styðjandi
  • auka árangur.

Það er ekki í verkahring markþjálfa að gefa ráð eða leysa úr vandamálum.  Hann aðstoðar hins vegar marksækjanda (en það er sá kallaður sem sækir sér markþjálfun) við að komast í nánari snertingu við þá þekkingu, gildi, kraft, áhugahvöt og markmið sem inni fyrir búa.  Í þessu skyni beytir markþjálfi virkri hlustun, spyr kröftugra spurninga, er styðjandi og hvetur til aðgerða.

Marksækjandi ræður hvert samtalsefnið er, en markþjálfi heldur utan um samtalið. Unnið er með markmið sem einstaklingurinn setur sér sjálfur, en eigin markmið eru mest áhugahvetjandi. Áherslan er lögð á möguleika í stað vandamála . Markþjálfun beinir sjónum sínum að nútíð og framtíð og er ekki meðferð. Markþjálfi lýtur ákveðnum siðareglum sem eru í samræmi ICF ( International coaching federation).

Sé um nemendasamtöl að ræða verða þau árangursríkari þegar  athyglinni er beint að nemandanum allan tímann og endurgjöfin er uppbyggileg og jákvæð. Samtölin eru algerlega í þágu nemandans.

Markþjálfun stuðlar að góðu og opnu andrúmslofti í skólanum. Hæfni til að miðla eykst, sem leiðir til betri samskipta sem og  til aukinnar samkenndar

Markþjálfun getur:

  • bætt skólabraginn
  • bætt námsárangur
  • bætt líðan nemenda og starfsfólks
  • minnkað brottfall nemenda
  • bætt samskipti starfsfólks og nemenda
  • aukið hugrekki til breytinga
  • aðstoðað kennara og nemendur við að setja sér markmið
  • stuðlað að meiri sjálfsábyrgð
  • bætt sjálfsmynd og aukið sjálfstraust
  • aukið hvatningu
  • opnað leiðir til að leysa ágreining
  • nýst til skólaþróunar

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.