Hvernig nýtist markþjálfun í skóla?

………vellíðan eykst, þrautseigjuvöðvinn styrkist og sjálfsmyndin skýrist með bættri yfirsýn og auknum námsárangri, segir Ingunn Ásta, kennari og markþjálfi í Háteigsskóla.  

Nemendur í 10. bekk eru nú á lokaönn sinni í grunnskólanum og eftirvæntingin eftir því sem koma skal í framhaldinu er farin að gera vel vart við sig. Tilfinningar þeirra sveiflast frá eftirvæntingu til forvitni og hjá einhverjum örlar á kvíða fyrir hinu óþekkta. Margar spurningar vakna sem þarfnast svara. Það sem er áþreifanlegt er sú tilfinning nemenda að nú séu að verða kaflaskil, þeir sjá fyrir endann á grunnskólagöngunni og munu halda á vit nýrra ævintýra í framhaldsskólanum. Þetta verður til þess að flestir eru tilbúnir að leggja sig fram um að gera sitt besta á lokasprettinum til að hámarka líkur á þeim hlotnist það sem þeir stefna að þegar grunnskólanum lýkur, til dæmis að hafa val um framhaldsskóla. Það er mitt hlutverk sem markþjálfi í grunnskóla að hvetja nemendur til dáða, hjálpa þeim að bera kennsl á og nýta styrkleika sína sér til framdráttar og vinna skipulega með það sem þarf að bæta. Nemendur í 10. bekk fá fjögur skipulögð markþjálfasamtöl yfir veturinn til að ræða um námið en geta pantað sér samtal þar fyrir utan að vild. Fyrri tvö samtölin fara fram í ágúst og seinni tvö í janúar með um þriggja vikna millibili.

Mér finnst stundum gott að nota íþróttir eða tómstundir sem efnivið í myndlíkingar þegar ég er að markþjálfa nemendur að því markmiði að gera sitt allra besta í náminu á lokaári grunnskólans. Ég kalla haustönnina þá gjarnan æfingatímabilið þar sem hægt er að æfa sig í að setja saman allt sem hefur þegar gagnast þeim vel í námi, til dæmis að halda góðum og jöfnum takti í vinnubrögðum og skilvirkni í verkefnavinnu, og ef til vill gefa í á völdum sviðum eftir þörfum. Einhverjir eru byrjendur í íþróttinni og aðrir lengra komnir eins og gengur en oftast mæta nemendur sjálfum sér og sinni stöðu af æðruleysi í fyrsta markþjálfasamtali haustannarinnar. Þegar nemendur fá rými til að tala um nám og námshætti og setja það í samhengi við íþróttaiðkun eru þeir fljótir að koma auga á það sem betur má fara og finna sjálfir leiðir til lausna eða eflingar sem henta þeim. Þeir setja sér markmið, velja leiðir að þeim og merkja við árangur á degi hverjum í þrjár til fjórar vikur. Svo hittumst við til að ræða hvernig gekk. Í eftirfylgnisamtölum tölum við um hvað hefur gefist vel, hvað þarf að þjálfa betur og stefnan tekin út önnina. Svo halda þeir ótrauðir út í haustönnina með uppgötvanir sínar í farteskinu og æfa sig. Í janúar hitti ég alla nemendur aftur í markþjálfun og þar bið ég þá að hugsa um lokaönnina sem leiðina í mark í svigskíðabrekku við kjöraðstæður. Allt sem þeir hafa lært og æft sig alla haustönnina í ætti að virka vel, og enn er möguleiki að gera betur. Sumir hafa kannski aðeins verið að missa úr æfingar en eru fljótir að taka við sér eftir samtalið, keppast við á ný, merkja við árangur og vinna að bættir stöðu. Hver nemandi skoðar svo ávinninginn eftirfylgnisamtali og markar sér stefnu út vorönnina. Þessu fylgir oft mikil gleði og aukið sjálfstraust, enda alltaf gott að vita hvaða leið er fær hverju sinni,  og finna út  að með jöfnu vinnuálagi náist markmiðið að lokum.

Námið í 10. bekk, og auðvitað allt nám fram að því, getur þannig orðið að skemmtilegri íþrótt sem hefur þann kost að eini aðilinn sem þú þarft að keppa við ert þú sjálfur. Það sem til þarf er vilji til að gera betur í dag en í gær, yfirsýn og þrautseigja. Nemandinn hefur fram að þessum tímapunkti í grunnskólanum lært aðferðir til að bera sjálfur ábyrgð á námi sínu og fær heldur betur tækifæri til að sýna það sem hann kann í þeim málum þegar 10. bekkur hefst og hann mætir í markþjálfun.  Kosturinn við að nemandinn æfi sig í að axla enn betur  ábyrgð á námi sínu í 10. bekk er, að hann er í öruggu umhverfi og nýtur stuðnings á meðan. Allan árangur sem hann nær getur hann eignað sjálfum sér og tekist á við það sem gera þarf betur af festu. Þannig eflist trú á eigin getu, vellíðan eykst, þrautseigjuvöðvinn styrkist og sjálfsmyndin skýrist með bættri yfirsýn og auknum námsárangri. Það er gleðilegt að sjá þegar nemendur tengja þetta allt saman og ná tökum á sjálfum sér. Gaman er að fylgjast með nemendum styrkjast og eflast með því að nota aðferðir  markþjálfunar. Markþjálfun á svo sannarlega heima í grunnskólanum.  

I

Markþjálfun nýtist vel í grunnskóla- segir Ingunn Ásta Sigmundsdóttir

Markþjálfun er gagnreynd samtalsaðferð sem miðar að því að stækka hugmyndir marksækjenda um sig sjálfa á þeirra eigin forsendum. Ég var í nokkur ár búin að kynna mér áherslur í grunnnámi í markþjálfun áður en ég fór að læra hana, og taldi ég að aðferðin myndi nýtast vel í starfi mínu sem kennari í námsveri á unglingastigi, hvar ég vinn að því að hvetja unga námsmenn til dáða á eigin forsendum.

Ég tók ákvörðun um að læra aðferðina haustið 2018 og ég hlakkaði mikið til námsins. Mig óraði þá ekki fyrir hvers konar starfstengd og persónuleg umbreyting átti eftir að eiga sér stað hjá mér á þessu tveggja ára námstímabili sem svo varð raunin, langt umfram það sem ég hafði gert mér í hugarlund í upphafi. Segja má að ég hafi kolfallið fyrir aðferðinni, sérstaklega í tengslum við starf mitt með nemendum, en ég lauk ekki bara grunnnáminu heldur stóðst einnig alþjóðlegt vottunarpóf og lauk framhaldsnámi í markþjálfun vorið 2020.

Aðferðir markþjálfunar falla vel að hugmyndum um einstaklingsmiðið nám, aðferðum leiðsagnarnáms, áherslum aðalnámskrár grunnskóla og menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030, svo eitthvað sé nefnt, og á markþjálfun því fyllilega heima í grunnskólastarfi að mínu mati. Það er samhljómur í reglum kennara um trúnað, ábyrgð og samskipti kennara við nemendur, í siðareglum sem gilda í samskiptum markþjálfa og marksækjenda. Í menntastefnu Reykjavíkurborgar er eitt af meginmarkmiðið sjálfsefling nemandans. Þar segir:„Sjálfsefling felur í sér að barnið öðlist trú á eigin getu, læri að þekkja styrkleika sína og veikleika ásamt því að setja sér markmið og fylgja þeim eftir. Sjálfsefling byggir á sjálfsaga og þrautseigju. Skýr og sterk sjálfsmynd hjálpar barninu að taka sjálfstæðar, ábyrgar ákvarðanir, takast á við mótlæti og lifa í sátt við aðra. Sjálfsstjórn og samskiptahæfni eru nátengd og hafa áhrif á sjálfstraust barna, líðan, námsárangur og árangur í lífinu.” Að nemandinn öðlist innsýn í styrkleika sína, valdeflist við að kunna að nýta sér þá og vinni markvisst að persónulegum markmiðum sínum rímar mjög vel við áherslur í markþjálfasamtali. Það er mín skoðun að í hverjum grunnskóla eigi að vera starfandi uppeldis- eða kennaramenntaður markþjálfi með reynslu af skólastarfi þar sem marksækjendur eru ungir að árum. Markþjálfinn vinnur líka náið með kennurum, námsráðgjöfum, stjórnemndum og foreldrum, hverjum nemanda til handa, og mikilvægt að viðkomandi markþjálfi þekki vel til skólastarfs almennt.

Ávinningur af markþjálfanáminu í starfi mínu sem kennari hverfist helst um tvo þætti; annars vegar um nám nemenda og hins vegar hvernig ég ígrunda kennsluhætti mína. Með aðferðum markþjálfunar, þá helst virkri hlustun, kraftmiklum spurningum og fjölsæi, heyri ég betur hvað skiptir máli í því hvernig nemendur læra, sem speglast svo í kennslu minni. Af því leiðir að nemendur upplifa árangur í námi fyrr en áður. Nemendur eflast í námi, en um leið á fleiri sviðum, því sjálfstraust þeirra eykst ásamt trú á eigin getu við bætt vinnubrögð og meiri námsárangur. Þessi gáruáhrif berast svo til fleiri þátta í lífi nemandans, inn í samskipti við foreldra og við fjölskyldu, í frístundastarfið og svo mætti lengi telja. Allt þetta eflir aftur sjálfstraust mitt sem kennari og markþjálfi. Mér finnst ég stundum hafa öðlast 4. persónu sjónarhorn á upplifun mína af kennarastarfinu með tilkomu markþjálfunar, það er mér mjög dýrmæt upplifun og verðlaunandi, sem ég er þakklát fyrir á hverjum degi.

Ég fékk í kjölfar námsins tækifæri til starfsþróunar og er markþjálfun nú daglegur hluti af starfi mínu í námsverinu. Árið 2019 útfærði ég þróunarverkefni sem felst í því að allir nemendur í 10. bekk fá fjögur námstengd markþjálfasamtöl á lokanámsári sínu í grunnskóla. Þar setja nemendur sér persónuleg, raunhæf og mælanleg námsmarkmið og njóta svo eftirfylgnisamtals þar sem fjallað er um hvað gekk vel og hvað hefði betur mátt fara. Nemendur geta einnig pantað sér fleiri samtöl ef þeir vilja. Reynslan sýnir að nemendur telja viðtölin mjög gagnleg til eflingar í námi og til stendur að víkka verkefnið með 10. bekk út til yngri nemenda ásamt fleiru sem tíminn leiðir í ljós.

Persónulegur ávinningur minn af markþjálfanáminu er svo víðtækur að hann er efni í aðra grein, en stutta útgáfan er sú að ég sit betur í sjálfri mér og er óhrædd við að uppfæra mig reglulega. Ég er glaðari, rólegri, treysti innsæi mínu og tilfinningum mínum betur en áður, stend betur með mér og tek ábyrgð á eigin líðan. Þannig verð ég meira ég og get gefið meira af mér til mín og minna, í leik og starfi. Ég hlakka til alls þess sem til mín kemur og lít björtum augum til framtíðar.

Ingunn Ásta Sigmundsdóttir, ACC vottaður markþjálfi.

Markþjálfun getur nýst í öllu skólastarfi bæði starfsfólki og nemendum.  Hún getur farið fram í einstaklingssamtölum  eða í hópum.

Unnið er með markmið sem einstaklingurinn setur sér sjálfur, eigin markmið eru mest áhugahvetjandi. Áherslan er lögð á möguleika í stað vandamála .

Sé um nemendasamtöl að ræða verða þau árangursríkari þegar  athyglinni er beint að nemandanum allan tímann og endurgjöfin er uppbyggileg og jákvæð. Samtölin eru algerlega í þágu nemandans.

Markþjálfun stuðlar að góðu og opnu andrúmslofti í skólanum. Hæfni til að miðla eykst, sem leiðir til betri samskipta sem og  til aukinnar samkenndar.

Markþjálfun getur:

 • bætt skólabraginn
 • bætt námsárangur
 • bætt líðan nemenda og starfsfólks
 • minnkað brottfall nemenda
 • bætt samskipti starfsfólks og nemenda
 • aukið hugrekki til breytinga
 • aðstoðað kennara og nemendur við að setja sér markmið
 • stuðlað að meiri sjálfsábyrgð
 • bætt sjálfsmynd og aukið sjálfstraust 
 • aukið hvatningu
 • opnað leiðir til að leysa ágreining
 • nýst til skólaþróunar 

Bækurnar hér að neðan er eftir norska og breska höfunda og lýsa hvernig markþjálfun getur nýst í skólastarfi.

IMG_1388     IMG_1390 (1)

Markþjálfun er verkfæri sem hvetur kennara til að horfa á starf sitt með framþróun í huga

Hvað finnst kennurum sem notið hafa markþjálfunar?

Meiri sjálfbærni:  Starfsfólk  getur leyst sin eigin vandamál sjálft, með því að markþjálfa hvort annað.
”Markþjálfinn sem ég vann með studdi mig einstaklega vel.  Með aðstoð hans tókst mér að finna lausnirnar sjálfur. Og það virkaði. Ég öðlaðist sjálfsöryggi til að takast á við verkefnið upp á eigin spýtur. Mjög gott, takk fyrir” (stærðfræðikennari með 5 ára reynslu).

Sjálfsálit/sjálfstraust: Starfsfólk sem upplifir að á það sé hlustað, en getur sjálft ráðið fram úr eigin málum, finnur til öryggis.
”Besta faglega starfsþróunin sem ég hef fengið síðastliðin þrjú ár. Frábært!
( þýskukennari með þriggja ára starfsreynslu).

Betri skilvirkni: Þessi vinnuaðferð hvetur einstaklinga, hópa og allan skólann til að komast fljótt að kjarna vandamálanna, með því að takast á við þau og halda síðan áfram.
”Hugmyndirnar sem ég fékk í samtali mínu við markþjálfa, notaði ég í kennslu minni. Ég öðlaðist meira sjálfstraust, varð skipulagðari og almennt ánægðari með hvernig mér tókst að mæta nýjum bekkjum. Það hefur virkilega sett mark sitt á kennsluna allt árið í flestum bekkjum.  (Náttúrufræðikennari, með þriggja ára reynslu).

Teymisvinna: Markþjálfun styrkir liðsandann.  Hvers vegna? – Vegna þess að þú þarft ekki að vera sérfræðingur í málefninu sem um er rætt til að geta markþjálfað og aðstoðað annan  við að finna lausnir að verkefninu. Það þýðir að allir hafa eitthvað fram að færa sem veitir ánægju og vellíðan á vinnustað.
”Frábært að sjá málin frá öðru sjónarhorni og komast að niðurstöðu…..saman”.(Náttúrufræðikennari, með tveggja ára reynslu).

Þýtt úr bókinni: The coaching Toolkit ( Shaun Allison and Michael Harbour, 2009, published by SAGE) –

Geta verður þess að í þessum skóla sem um ræðir hafa kennarar fengið námskeið og fræðslu um aðferðir markþjálfunar,  þó svo að þeir hafi ekki réttindi til að kalla sig markþjálfa, hins vegar eru líka kennarar í hópnum með réttindi markþjálfa.

.